Landgræðsla
Samhliða nýtingu auðlindanna hefur Orkuveitan og forverar fyrirtækisins unnið að landbótum. Við leggjum ríka áherslu á góðan frágang og Orka náttúrunnar vinnur markvisst að landgræðslu á virkjanasvæðum fyrirtækisins, með það að markmiði að endurheimta náttúrulegan gróður og umhverfi eftir rask. Á sumrin starfar fríður flokkur fólks við landgræðslu og fegrun umhverfis við virkjanir fyrirtækisins. Meðal verkefna eru gróðursetning viðigræðlinga, söfnun og dreifing fræslægju og endurheimt á mosaþembum.
Skógrækt á vegum Orkuveitunnar hefur einnig lengi verið umfangsmikil, þar sem Elliðaárdalurinn og Öskjuhlíð eru áberandi dæmi og á hverju ári gróðursetjum við um 8.000 tré.

Skógræktarferð í Elliðaárdal 1951
Á fjölförnum útivistarsvæðum í eigu Orkuveitunnar, í Heiðmörk og á Hengilssvæðinu, er stöðugt unnið að viðhaldi göngustíga og endurbótum merkinga fyrir ferðafólk. Í vaxandi mæli er sá gróður sem fyrir er tekinn til hliðar við framkvæmdir og hann nýttur til að endurheimta fyrri gróðurþekju.
Náttúrumiðaðar lausnir
Þegar auðlindanýtingin kallar á rask er leitast við að bæta úr með náttúrumiðuðum lausnum og Orka náttúrunnar er frumkvöðull í beitingu þeirra hér á landi. Hér má sjá tvö dæmi um að vatni er beint æskilegar leiðir án þess að það valdi rofi á grónu landi. Á vef Orku náttúrunnar má lesa nánar um landgræðslu.