Loftslagsmál
Orkuveitan stefnir á kolefnishlutleysi eigin starfsemi árið 2030 en einnig vegna aðfangakeðju starfseminnar árið 2040.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka um 90% í umfangi 1 og 2 og um 40% í umfangi 3 árið 2030, miðað við losun viðmiðunarársins 2016.
Loftslagsmarkmiðið er staðfest af Science Based Target initiative (SBTi) og stenst kröfur loftslagsvísindanna um að halda hitastigshækkun undir 1,5°C.
Loftslagsbókhald
Orkuveitan birtir loftslagsbókhald sem tekur tillit til um 95% beinnar og óbeinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins. Þar á meðal er bein losun frá jarðvarmavirkjunum, vegna fráveituúrgangs og bílaflota en líka óbein losun í aðfangakeðjunni þar sem kolefnisspor keyptrar vöru og þjónustu vegur þungt.
Loftslagsbókhald Orkuveitunnar er unnið samkvæmt aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol og nýtur óháðrar vottunar á að það uppfylli kröfur alþjóðlega staðalsins ISO 14064-1. Í loftslagsbókhaldinu sést losun einstakra þátta rekstursins, markmið okkar og mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum.
Loftslagsvegvísir
Vorið 2025 gaf Orkuveitan út Loftslagsvegvísi þar sem lýst er lykilaðgerðum til að ná loftslagsmarkmiðunum, helstu verkfærum fyrirtækisins í baráttunni gegn loftslagsvánni og tækifærum og áskorunum á þeirri vegferð. Þar eru einnig settir fram þeir mælikvarðar sem segja til um hvort Orkuveitunni miði í rétta átt.
Carbfix
Carbfix er sprotafyrirtæki í eigu Orkuveitunnar byggt á samnefndri aðferð til kolefnisbindingar í bergi. Markmið Carbfix er að vinna gegn loftslagsvánni með því að þróa og auka enn frekar steinrenningu CO₂ neðanjarðar um allan heim. Aðferðin var þróuð og prófuð við Hellisheiðarvirkjun og þar hefur hún gert starfsemi virkjunarinnar nánast sporlausa.