Samtal við samfélagið
Orkuveitan og dótturfyrirtækin veita um átta af hverjum tíu Íslendingum einhverja þjónustu. Í flestum tilvikum eru fyrirtækin einskonar tengiliður milli auðlinda landsins og fólksins og fyrirtækjanna sem njóta þeirra.
Ábyrgð Orkuveitunnar og þar með Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix er að þjónustan sé áreiðanleg og á sanngjörnu verði. Þjónustan efli þannig samfélögin án þess að þannig sé gengið að náttúruauðlindunum að komandi kynslóðir fái ekki notið þeirra líka.
Hlutfall tengdra heimila á Íslandi

Sterkt samtal við samfélagið
Orkuveitan leggur ríka áherslu á að veita skýrar, áreiðanlegar og aðgengilegar upplýsingar um starfsemina. Það er okkur mikilvægt að eiga í opnu og virku samtali við samfélagið þar sem traust og gagnsæi eru leiðarljós í allri upplýsingamiðlun. Með því að miðla þekkingu og upplýsingum um verkefnin okkar á einfaldan hátt stuðlum við að að upplýstri umræðu um málefni sem skipta þjóðina máli – hvort sem það eru orkumál, innviðir, fjarskipti eða loftslagsmál.
Við gegnum lykilhlutverki í íslensku samfélagi með því að tryggja aðgang að hreinni orku, traustum innviðum, öruggum fjarskiptum og lausnum í loftslagsmálum. Við teljum að árangur í þessum verkefnum byggist á traustu sambandi við samfélagið, stjórnvöld, viðskiptavini og starfsfólk. Þess vegna vinnum við markvisst að því að hlusta, svara og miðla upplýsingum sem styrkja sameiginlega sýn okkar á sjálfbæra framtíð og skapa hrein tækifæri fyrir framtíðina.
Um leið og fjölbreytt orku- og veituþjónustan er í raun forsenda samfélagsbyggingarinnar geta brýnar framkvæmdir og óhjákvæmilegar bilanir í kerfum valdið verulegri truflun í úrverkinu. Því leggur Orkuveitan áherslu á öfluga upplýsingagjöf þegar út af ber. Þegar stór hluti höfuðborgarsvæðisins mátti þola heitavatnsleysi vegna tenginga á árinu 2024 sýndi þessi áhersla sig en hún gerir það ekki síður þegar minna ber út af og þjónustubrestur nær til færri viðskiptavina. Vinna á borð við þessa skilar sér í jákvæðari afstöðu almennings til rekstrarins og aukins gagnkvæms skilnings fyrirtækisins og viðskiptavina þess á þörfum og óskum hvors um sig.
Afstaða almennings ræðst einnig af umræðu á opinberum vettvangi, meðal annars um áform Orkuveitunnar og einstakra fyrirtækja innan samstæðu hennar. Orkuveitan leggur talsvert á sig við mótun verkefna sinna til að aukin sátt megi ríkja um þau, að ávinningur af þeim falli ekki bara fyrirtækinu í skaut. Þetta gildir jafnt um orkuöflun, kolefnisbindingu og viðamikið viðhald á veitukerfum. Að breyta verkefnum á teikniborðinu er framsýnna og hagsýnna en þegar lengra er komið. Þess vegna er kapp lagt á að þegar í upphafi sé verkefnum okkar lýst með heiðarlegum hætti, á þeim sagður kostur og löstur, sem grundvöllur ærlegs og uppbyggilegs samtals um framvindu þeirra. Oftast næst slíkt samtal. Ekki alltaf og stundum þarf að finna verkefnum nýjan flöt, nýjan farveg eða nýjan vettvang.
Hér má nálgast upplýsingar um verkefni Orkuveitunnar.
Viðskiptavinir
Kaupendur þjónustu Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna – Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix – eru af ýmsu tagi.
Þjónusta Veitna er að langmestu leyti svæðisbundin sérleyfisþjónusta þar sem fyrirtækið á ekki í samkeppni. Þjónustustig, þjónustugæði og verðlagning er undir opinberu eftirliti. Þjónustu annarra fyrirtækja í samstæðunni kaupa viðskiptavinir á samkeppnismarkaði þar sem framganga fyrirtækjanna nýtur aðhalds markaðarins og opinberra eftirlitsstofnana.

Afstaða almennings til vörumerkja Orkuveitunnar
Öll fyrirtækin í samstæðunni fylgjast grannt með ánægju viðskiptavina sinna og breytilegum þörfum þeirra, hvert með sínum hætti þó því viðskiptavinirnir eru af ólíku tagi.
Öll fyrirtækin fylgjast líka með almennri afstöðu almennings til þeirra og svona hefur hún þróast síðustu ár. Myndin sýnir árleg meðaltöl þar sem spurt er hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart þessum vörumerkjum og svarað er á skalanum 0-10.