Samfélagið
Orkuveitan og dótturfyrirtækin veita um átta af hverjum tíu Íslendingum einhverja þjónustu. Í flestum tilvikum eru fyrirtækin einskonar tengiliður milli auðlinda landsins og fólksins og fyrirtækjanna sem njóta þeirra.
Ábyrgð Orkuveitunnar og þar með Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix er að þjónustan sé áreiðanleg og á sanngjörnu verði. Þjónustan efli þannig samfélögin án þess að þannig sé gengið að náttúruauðlindunum að komandi kynslóðir fái ekki notið þeirra líka.
Hlutfall tengdra heimila á Íslandi

Sterkt samtal við samfélagið
Orkuveitan leggur ríka áherslu á að veita skýrar, áreiðanlegar og aðgengilegar upplýsingar um starfsemina. Það er okkur mikilvægt að eiga í opnu og virku samtali við samfélagið þar sem traust og gagnsæi eru leiðarljós í allri upplýsingamiðlun. Með því að miðla þekkingu og upplýsingum um verkefnin okkar á einfaldan hátt stuðlum við að að upplýstri umræðu um málefni sem skipta þjóðina máli – hvort sem það eru orkumál, innviðir, fjarskipti eða loftslagsmál.
Við gegnum lykilhlutverki í íslensku samfélagi með því að tryggja aðgang að hreinni orku, traustum innviðum, öruggum fjarskiptum og lausnum í loftslagsmálum. Við teljum að árangur í þessum verkefnum byggist á traustu sambandi við samfélagið, stjórnvöld, viðskiptavini og starfsfólk. Þess vegna vinnum við markvisst að því að hlusta, svara og miðla upplýsingum sem styrkja sameiginlega sýn okkar á sjálfbæra framtíð og skapa hrein tækifæri fyrir framtíðina.
Hér má nálgast upplýsingar um verkefni Orkuveitunnar.
Viðskiptavinir
Kaupendur þjónustu Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna – Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix – eru af ýmsu tagi.
Þjónusta Veitna er að langmestu leyti svæðisbundin sérleyfisþjónusta þar sem fyrirtækið á ekki í samkeppni. Þjónustustig, þjónustugæði og verðlagning er undir opinberu eftirliti. Þjónustu annarra fyrirtækja í samstæðunni kaupa viðskiptavinir á samkeppnismarkaði þar sem framganga fyrirtækjanna nýtur aðhalds markaðarins og opinberra eftirlitsstofnana.

Afstaða almennings til vörumerkja Orkuveitunnar
Öll fyrirtækin í samstæðunni fylgjast grannt með ánægju viðskiptavina sinna og breytilegum þörfum þeirra, hvert með sínum hætti þó því viðskiptavinirnir eru af ólíku tagi.
Öll fyrirtækin fylgjast líka með almennri afstöðu almennings til þeirra og svona hefur hún þróast síðustu ár. Myndin sýnir árleg meðaltöl þar sem spurt er hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart þessum vörumerkjum og svarað er á skalanum 0-10.
Fræðsla
Orkuveitan leggur metnað í að fræða börn og fullorðna um starfsemi sína, sögu hennar og í uppbyggingu frekari vísindalegrar þekkingar á starfssviði Orkuveitunnar.
Elliðaárstöð
Elliðaárstöð er lifandi áfangastaður í hjarta borgarinnar. Hér koma gestir saman til að fræðast, upplifa, skapa og njóta náttúrunnar.
Rafstöðin í Elliðaárdal markaði upphaf rafvæðingar í Reykjavík þegar hún var gangsett árið 1921 og lýsti hún leiðina til framtíðar. Rafmagnið og veiturnar sem fylgdu í kjölfarið umbyltu lífsgæðum borgarbúa og með þeim varð til þekking og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag.
Líkt og árnar voru áður virkjaðar er nú lögð áhersla á að virkja fólk og hugvit í Elliðaárstöð.
Elliðaárstöð samanstendur af Rafstöðinni, Gestastofu, vatnsleikjagarði, Heimili veitna, gufubornum Dofra, borholuhúsi og kaffihúsinu Elliða.
Vísindamiðlarar Elliðaárstöðvar taka á móti skólahópum og öðrum gestum í leiðsagnir og fræðslu í Elliðaárstöð. Margar göngu- og hjólaleiðir liggja að svæðinu ásamt því eru stoppistöðvar Strætó í næsta nágrenni. Einnig er hægt að leigja aðstöðu fyrir viðburði og afnot af útisvæðinu.
Jarðhitasýningin
Nýting jarðhitans á sér langa sögu á Íslandi og er fléttuð djúpt inn í menningu okkar. Jafnvel þannig að við tökum nýtingu jarðhitaauðlindarinnar oft sem sjálfsagðan hlut í okkar daglega lífi, sögu og lífsgæðum.
Jarðhitasýningin býður upp á leiðsögn fyrir skólaheimsóknir og aðra gesti, þar sem áhersla er meðal annars á jarðfræði Íslands, nýtingu jarðvarmans í orkuvinnslu, kolefnisföngun með Carbfix aðferðinni og starfsemi Jarðhitagarðs ON.
Jarðhitasýningin hefur það að markmiði að sýna okkur hvernig jarðhiti og nýting hans fléttast inn í menningu okkar, en stóran hluta lífsgæða á Íslandi má sannarlega rekja til náttúruauðlinda landsins og hvernig okkur hefur tekist að nýta þær.