Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal
Fyrirhugaðar eru breytingar á mannvirkjum Elliðárvirkjunar (Árbæjarstíflu og aðrennslispípu) vegna niðurlagningar Elliðaárvirkjunar. Raforkuvinnsla í rafstöðinni við Elliðaár lagðist af árið 2014 eftir að aðfallspípan, sem flutti vatn frá Árbæjarstíflu til rafstöðvarinnar, brast og var í kjölfarið úrskurðuð ónýt.
Í framhaldinu var skoðað hvort það gæti svarað kostnaði að gera við hana en niðurstaðan varð neikvæð. Árið 2019 var kveðið upp úr með það að raforkuvinnsla hæfist ekki aftur í fyrirséðri framtíð. Þá var efnt til hugmyndasamkeppni um nýtt hlutverk mannvirkjanna sem öll höfðu verið friðuð árið 2012. Uppbyggingin undir merkjum Elliðaárstöðvar er afrakstur þeirrar vinnu.
Fyrirhugaðar breytingar marka tímamót í vatnastjórnun og vistheimt á Íslandi, þar sem um er að ræða eina fyrstu stóru framkvæmdina sem hefur að markmiði að gera breytingar á stíflumannvirki til að endurheimta straumvatnsvistkerfi.
Elliðaárvirkjun
Elliðaárvirkjun var gangsett árið 1921 og var fyrsta vatnsaflsvirkjun Reykvíkinga. Upphaflega voru tveir hverflar sem framleiddu rúmlega eitt MW. Aukið var við aflið á næstu 12 árum þar til það var komið í rúmlega 3 MW.
Í dag er engin rafmagnsframleiðsla í stöðinni. Ítrekaðar bilanir á þrýstivatnspípu virkjunarinnar, sem endurnýjuð var árið 1978, leiddu til stopullar orkuvinnslu frá árinu 2011. Eftir bilun árið 2014 var pípan úrskurðuð ónýt og eftir margvíslegar athuganir á hugsanlegri endurnýjun pípunnar og mögulega breyttri tilhögun orkuvinnslu, var afráðið árið 2020 að rafmagnsframleiðslu í Elliðaárvirkjun væri lokið um fyrirsjáanlega framtíð.
Með ákvörðun um niðurlagningu Elliðaárvirkjunar hefur mannvirkið lokið hlutverki sínu sem stífla og með opnun árfarvegarins skapast skilyrði fyrir náttúrulegt flæði vatns og sets niður eftir ánni og óhindraða upp- og niðurgöngu fiska og annarra lífvera.
Framkvæmd
Að höfðu samráði við Orkustofnun (nú Umhverfis- og orkustofnun), verður niðurlagningaráætlun Elliðaárvirkjunar tvískipt; annars vegar vegna mannvirkja frá Árbæjarstíflu að Rafstöð og hins vegar vegna Elliðavatnsstíflu. Ákvörðunin er tekin í ljósi þessi að svo til engin fordæmi eru til um niðurlagningu virkjana hérlendis og vegna þess að framtíð Elliðavatnsstíflu kallar á umfangsmeira samráð þar sem hún liggur á sveitarfélagamörkum.
Árbæjarstífla
Árbæjarstífla er steypt mannvirki sem liggur yfir Elliðaár, rétt austan við Höfðabakka. Mannvirkið er um 165 m að lengd og allt að 6 m að hæð. Í dag er gönguleið ofan á stíflunni, 1,4 m breið stálbrú með timburgólfi sem tengir Árbæ við Breiðholt.
Ný göngubrú yfir stíflusvæðið
Fyrirhugaðar breytingar á Árbæjarstíflu snúa bæði að því að varðveita sögu mannvirkisins og fjarlægja þá hluta sem hindra flæði árinnar.
Gert er ráð fyrir að stórir hlutar stíflunnar verði fjarlægðir, ekki síst þeir sem eru í árfarveginum. Þannig verði bæði best tryggt aðgengi fiska og smádýra upp allar árnar auk þess sem upprunalegur árfarvegur endurheimtist. Þeir hlutar sem ekki verða fjarlægðir er haldið sem sögulegri skírskotun í byggingu Árbæjarstíflu.
Ný láreist göngubrú verður reist yfir stíflusvæðið og varðveitir gönguleiðina. Lagt var upp með að hönnun brúarinnar yrði látlaus og létt í útliti, þannig að hún falli vel að náttúrulegu umhverfi svæðisins og taki ekki of mikla athygli frá stíflumannvirkinu. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða var ákveðið að velja stálbrú með léttu yfirborðsefni og opnu, gegnsæju handriði sem rýrir ekki sjónlínu yfir svæðið. Brúin verður um það bil 110 metra löng og virk breidd brúarinnar verður um 2,5 m.

Drög að ásýnd upplifunarbrúar eftir breytingar á stíflumannvirki.
Burðarvirki og burðarsúlur brúarinnar er úr stáli og brúargólfið samanstendur af stálgrindum og er að hluta til klætt með endurnýttu timbri úr fallpípu gömlu rafstöðvarinnar. Handrið verða 1200 mm á hæð og hönnuð þannig að börn og dýr komist ekki í gegnum þau.
Gönguleiðin leiðir vegfarendur meðfram stíflubrotunum og breytir um legu á einum stað. Nýja brúin mun liggja neðar en núverandi brú og núverandi göngustígur og hjólastígur munu færast nær nýju brúnni til þess að tryggja góða og áreynslulausa tengingu við hana. Tilfærsla á gönguleiðinni mun bæta aðgengismál og gera þær sögulegu minjar sem eftir eru sýnilegri vegfarendum. Með fyrirhuguðum merkingum er hægt að fræðast um sögu stíflumannvirkisins með beinum hætti.
Mannvirkið er hannað með tilliti til algildrar hönnunar og aðgengi er tryggt fyrir öll, þar með talið einstaklinga með hreyfihömlun. Nýtt brúarmannvirki verður fremur upplifunarbrú en samgöngumannvirki og þar er gert ráð fyrir útskotum, stöðum til að staldra við á og skoða ólík byggingartímabil stíflunnar svo fátt eitt sé nefnt. Þannig verður staðsettur hvíldarpallur yfir hólmanum í ánni sem eykur aðstöðu fyrir notendur og bætir upplifun af útivistarsvæðinu. Gert er ráð fyrir göngu- og hjólaálagi ásamt því að snjóruðningstæki geti ekið yfir mannvirkið. Áhersla er jafnframt lögð á frágang þar sem hvorki fólk né dýr á borð við hunda og ketti komist af brúnni yfir í Blásteinshólma sem nýtur friðunar.

Gönguleiðin breytir um legu og myndar áningar- og útsýnisstað
Lýsing á brúnni
Lýsingarhönnun er gert hátt undir höfði og mið tekið af því að lýsing trufli ekki dýralíf og vatnalíf í Elliðaánum. Heildarhugmynd lýsingar byggir á að lágmarka notkun ljósastaura en uppfylla lýsingarkröfur með vandlega staðsettum ljósgjöfum. Hugsunin er að skapa lágstemmda göngulýsingu á nýju brúnni og verður hún lýst upp með innbyggðum LED ljósum í handriði og/eða burðareiningum brúarinnar. Stífluminjar verða lýstar með nákvæmum kösturum (arfleifðarlýsing) og þess gætt að ljósgjafi beinist ekki niður í árnar.
Áningarstaðir
Báðir endar mannvirkisins verða varðveittir og nýtast sem útsýnispallar. Norðan megin er stærri pallur og lítið steinsteypt hús, stífluhúsið, sem nýtt verður í fræðsluskyni. Torgið/dvalarsvæðið norðan við nýja brú er mikilvægur miðpunktur í stígakerfi Elliðaárdalsins þar sem göngu-og hjólaleiðir úr öllum áttum mætast. Torgið tengir Rafstöðvarveginn og fyrirhugaða nýja brú yfir Elliðaárnar. Lokuhús sem staðsett er vestan megin við norðurenda stíflu verður fjarlægt. Þannig næst bein sjónræn tenging í gegnum undirgöng að Rafstöðvarvegi.
Að framkvæmd lokinni verður ný upplifunarbrú afhent Reykjavíkurborg til eignar og rekstrar.

Aðrennslispípa og Rafstöðvarvegur
Aðrennslispípan tengir saman Árbæjarstífluna og Gömlu rafstöðina. Pípan liggur meðfram Rafstöðvarvegi og er um 1 km að lengd og um 2 m að breidd. Í dag er Gamla rafstöðin hluti af áfangastaðnum Elliðaárstöð og salurinn sem hýsir túrbínur og stjórnstöð notaður undir fræðslu og viðburði. Við norðurhlið hússins er endastöð pípunnar þar sem hún skiptist upp í fjórar greinar í gryfju og tengist við túrbínur inni í húsinu.
Aðrennslispípa Elliðaárvirkjunar var lögð 1978. Hún hefur ítrekað bilað og Orkuveitan hefur haft áhyggjur af öryggi hennar um langa hríð. Nú er svo komið að gjarðir standa sum staðar upp úr jarðveginum og annars staðar eru áhyggjur af því að lögnin og jarðvegur hennar geti fallið saman, en pípustæðið er í dag fyrst og fremst nýtt sem gönguleið.
Rafstöðvarvegur nær frá Vesturlandsvegi í vestri að Höfðabakka við Árbæjarstíflu. Þar sem aðfallspípan liggur meðfram veginum frá Gömlu rafstöðinni að stíflu, er mikilvæg samgönguleið gangandi og hjólandi og er skilgreind hjólaleið í Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar. Flest sem koma akandi um Rafstöðvarveg eiga leið að Elliðaárstöð eða Hinu húsinu, austar þjónar hann helst íbúum en 11 íbúðarhús standa við Rafstöðvarveg. Auk þess eru Félagsheimili Orkuveitunnar og Verkbækistöð Reykjavíkur með aðkomu frá veginum. Auk gönguleiðar með veginum eru göngustígar sem tengjast honum frá Ártúnsholti og óformlegir gönguslóðar niður í Elliðaárdal.
Fyrirhugaðar breytingar á aðrennslispípu
Í tengslum við niðurlagningu Elliðaárvirkjunar hefur Orkuveitan átt í viðræðum við Minjastofnun Íslands um heimild til að fjarlægja aðrennslispípuna að stórum hluta, en viðhalda sjónrænni tengingu stíflu og stöðvar. Með þessu er öryggi vegfarenda á pípustæðinu eflt og mögulegt er að huga að umferðaröryggi sífellt fjölgandi gangandi, hjólandi og akandi vegfarenda um Rafstöðvarveg með samþættri hönnun.
Lagt er til að Rafstöðvarvegur frá undirgöngum við Höfðabakka að Elliðaárstöð verði vistgata. Vistgata er gata þar sem umferð gangandi vegfarenda og hægfara farartækja á borð við reiðhjól, hjólabretti o.s.frv. eru í forgrunni, en heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum á að hámarki 15 km/klst. Í vistgötum deila ólíkir ferðamátar rými og þar er bæði heimilt að dveljast og vera við leik. Þetta samræmist bæði markmiðum Reykjavíkurborgar um að draga úr umferðarhraða á Rafstöðvarvegi og bæta öryggi allra vegfarenda og gerir það einnig kleift að halda í sjónræna tengingu pípustæðis milli stíflu og stöðvar og miðla sögu aðrennslispípunnar og Elliðaárvirkjunar á gönguleiðinni.
Upp Rafstöðvarveg er gert ráð fyrir hjólandi umferð norðan megin í báðar áttir og akandi á malbiki milli pípustæðis og hjólandi umferðar. Gangandi eru þó alltaf í forgangi, bæði á malbiki og á pípustæði. Núverandi malbiki verður ekki raskað en á völdum stöðum verður málað á það.

Drög að innsetningu á Rafstöðvarvegi
Bætt verður úr aðstöðu fyrir gangandi vegfarendur á svæðinu með tengingum frá Elliðaárstöð, upp Rafstöðvarveg til austurs, að bílastæði við Hitt húsið og að göngubrú inn í dalinn vestan megin. Frá vestri koma bílstjórar akandi um Rafstöðvarveginn og hafa tilhneigingu til að leggja bílum upp með veginum meðfram Elliðaárstöð. Þetta getur skapað hættu og hindrað ferðir gangandi og hjólandi. Með tillögunni er ökutækjum enn fært að keyra upp að Elliðaárstöð, sérstaklega hreyfihömluðum og rútum að sleppistæðum. Akandi er þó beint á bílastæði hjá Hinu húsinu en við inngang Elliðaárstöðvar er upphækkuð göngutenging yfir veginn til að draga úr umferðarhraða og leggja áherslu á forgang gangandi. Við aðveitustöð Veitna er þrenging á veginum til að marka skýrt breytta áherslu.
Lýsing Rafstöðarvegar þarf að uppfylla staðla fyrir bæði ökutæki og gangandi vegfarendur. Hins vegar skal götulýsingu haldið í lágmarki til að forðast ljósmengun á svæðinu. Ljósastaurar verða einfaldir í útliti og færðir yfir á gagnstæða hlið frá núverandi staðsetningu.
Að framkvæmd lokinni verður pípustæðið afhent Reykjavíkurborg til eignar og rekstrar.
Elliðaárstöð
Elliðaárstöð er í dag nýr áfangastaður í hjarta Elliðaárdals þar sem ljósi er varpað á þátt veitnanna í þróun borgarsamfélagsins. Aflögð orkumannvirki hafa nú verið gerð aðgengileg almenningi, en þar er til að mynda hægt að fara á kaffihús í húsum sem áður hýstu smiðju og fjós, skoða heimili veitnanna þar sem hið ósýnilega verður sýnilegt í húsi sem áður var heimili rafveitustjóra og gestastofu hefur verið komið fyrir í straumskiptistöðinni. Utandyra er jafnframt leiksvæði sem hefur vatn og virkni þess í aðalhlutverki, en þar geta börn fræðst um orku og auðlindir dalsins í lifandi leik.
Elliðaárstöð hlaut Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum staður og var jafnframt tilnefnd til Mies van Rohe verðlaunanna í arkitektúr 2026, en það eru ein virtustu byggingarlistaverðlaun heims og er ætlað að vekja athygli á því sem best er gert í evrópskri byggingarlist. Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt.
Húsakosturinn á Rafstöðvartorfunni hefur allur öðlast nýtt hlutverk með uppbyggingu Elliðaárstöðvar. Hann stendur utan árfarveganna og umfang hans er ekki slíkt að um verulegt inngrip í lífríki eða vatnabúskap dalsins sé að ræða, en á hinn bóginn er minjagildi hans staðfest með friðun. Þróun mannvirkjanna til hins nýja hlutverks, sem þau gegna nú, hefur verið og verður í samráði við Minjastofnun. Því er hvorki gert ráð fyrir því í þessari niðurlagningaráætlun að hinn friðaði húsakostur við Rafstöðvarveg verði fjarlægður né að lóðirnar verði færðar til fyrra horfs.
Orkuveitan mun áfram bera ábyrgð á eignarhaldi og rekstri aflagðra raforkumannvirkja á Rafstöðvartorfunni.

Áhrif niðurlagningaráætlunar á samfélag
Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Nánustu nágrannar dalsins eru íbúar Breiðholts, Árbæjar, Ártúnsholts, Fossvogs, Kópavogs og íbúar í Vogabyggð. Fjölbreytt starfsemi á sér stað í og við dalinn og má þar helst nefna Stangaveiðifélag Reykjavíkur, ræktun í matjurtagörðum, Hitt húsið - miðstöð ungs fólks, útikennsla leikskóla og grunnskóla og göngu- og hjólahópar. Einnig liggja að Rafstöðvarvegi Elliðaárstöð, Verkbækistöð Reykjavíkurborgar og Árbæjarsafn.
Orkuveitan hefur átt samráð við Minjastofnun Íslands og Húsafriðunarnefnd um fyrirhugaðar breytingar á mannvirkjum og í forhönnun hefur rík áhersla verið lögð á að ná markmiðum beggja, það er að endurheimta náttúrugæði í Elliðaárdal en á sama tíma standa vörð um sögu þessara mikilvægu mannvirkja í sögu borgarinnar. Það er meðal annars gert með því að láta hluta stíflumannvirkis frá öllum byggingartímabilum þess standa, en nýta þá til að þjóna mannlífi í dalnum með því að nýta þá sem undirstöður undir samgönguæð yfir árnar.
Orkuveitan lítur svo á að niðurlagning Elliðaárvirkjunar bjóði upp á tækifæri til að miðla því hvernig virkjunarframkvæmdir geta verið afturkræfar og leggja metnað í að gera það sem bestum hætti.
Markmið forhönnunar er að styðja við þá miklu útivist og mannlíf sem fyrirfinnst í Elliðaárdalnum, í sátt við náttúrunna. Breytingar á mannvirkjum hafa það að markmiði að bæta aðgengi fyrir öll og auka öryggi allra vegfarenda. Við breytingar á og við stíflumannvirki er hugað að öryggi vegfarenda með því að fjarlægja háar bakkavarnir vestan Árbæjarstíflu og laga landhalla að ánni. Þannig er dregið úr mögulegri fallhættu á svæðinu, en á þessum bakka eru fuglum gjarnan gefið brauð.
Ætlunin með tillögum um nýja göngubrú og breytingar á Rafstöðvarvegi er að auka tækifærin til útivistar, fræðslu og dvalar. Að teknu tilliti til þessara sjónarmiða er talið að niðurlagningin hafi með að hafa jákvæð áhrif á samfélagslega þætti.

Áhrif niðurlagningaráætlunar á lífríki og náttúrufar
Fyrirhugaðar breytingar á Árbæjarstíflu marka raunverulega tímamót í vatnastjórnun og vistheimt á Íslandi, þar sem um er að ræða eina fyrstu framkvæmd sem hefur að markmiði að gera breytingar á stíflumannvirki til að endurheimta straumvatnsvistkerfi. Með ákvörðun um niðurlagningu Elliðaárvirkjunar hefur mannvirkið lokið hlutverki sínu sem stífla og með opnun árfarvegarins hafa skapast skilyrði fyrir náttúrulegt flæði vatns og sets niður eftir ánni og óhindraða upp- og niðurgöngu fiska og annarra lífvera.
Þegar Elliðaárvirkjun var enn í notkun voru botnlokur Árbæjarstíflu opnaðar árlega að vori og lónið tæmt til að auðvelda göngu fiska upp ána. Við tæminguna barst mikið magn sets niður árnar í einu, set sem hafði safnast upp ofan stíflu yfir árið. Þekkt er að mikið magn sets getur haft neikvæð áhrif á vatnalíf og hafði verið ályktað að þetta fyrirkomulag ylli árlegu álagi á lífríki ánna.10 Frá árinu 2020 hafa botnlokur Árbæjarstíflu verið varanlega opnar og vatnsrennsli farið nánast óhindrað um farveginn. Með því féll niður árlegt álag á lífríkið vegna setflutnings við tæmingu lónsins, og jafnframt varð gönguleið fiska upp Árbæjarkvísl greið allt árið um kring.
Vöktunarannsóknir Laxfiska á laxi og urriða í Árbæjarkvísl eftir opnun botnloka Árbæjarstíflu sýna fram á að laxinn hefur nú þegar endurheimt gönguleið sína og þar með hrygningar- og uppeldissvæði í kvíslinni. Opnun botnlokanna hefur því haft ótvíræð jákvæð áhrif á fiskistofna árinnar, og fyrirhugaðar breytingar á Árbæjarstíflu sem fela í sér endurheimt á náttúrulega samfellu árfarvegsins eru taldar stuðla að fjölbreyttari og stöðugri búsvæðum til framtíðar og hafa varanleg jákvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og vistfræðilegat ástand Elliðaánna.
Við framkvæmdina sjálfa má búast við tímabundnum neikvæðum áhrifum á líffræðilega og efna- og eðlisefnafræðilega gæðaþætti, en gert er ráð fyrir að áhrifin verði lítilsháttar, staðbundin og tímabundin.
Heildarniðurstaða áhrifamats á vatnshlot er sú að fyrirhuguð framkvæmd muni hvorki valda hnignun á ástandi vatnshlotanna né koma í veg fyrir að þau nái settum umhverfismarkmiðum. Þvert á móti er ljóst að áhrifin verða til lengri tíma mjög jákvæð, þar sem vistkerfi Elliðaánna fær að þróast án þeirrar hindrunar sem stíflan hefur skapað í nær heila öld. Ávinningurinn felst ekki einungis í bættum lífsskilyrðum fyrir fiskastofna heldur einnig í endurheimt náttúrulegrar samfellu, betri vatnsformfræðilegum eiginleikum og fjölbreyttari búsvæðum sem stuðla að aukinni líffræðilegri fjölbreytni til framtíðar.
Vinna í árfarvegi verður framkvæmd utan helsta göngu- og hrygningartíma laxfiska, þ.e. á tímabilinu 15. október til 15. apríl. Við frágang svæðisins verður leitast við að viðhalda núverandi rennslisaðstæðum, vatnshæðum, hyljum og straumum sem henta lífríki árinnar. Lokahönnun og frágangur verða unnin í samráði við líffræðinga og vistfræðinga til að tryggja jafnvægi og náttúrulega þróun farvegsins.
Tímalína verkefnisins
Næstu skref eru kynning á verkefninu og samráð um deiliskipulagstillögu og niðurlagningaráætlun og að lokum verkhönnun á viðeigandi mannvirkjum. Nánari tímalína fyrir sjálfa framkvæmdina liggur ekki fyrir.
Orkuveitan og Reykjavíkurborg munu kynna verkefnið á opnum kynningarfundi á Elliða, kaffihúsinu í Elliðaárstöð. Dagsetningar verða auglýstar.
Frekari upplýsingar
Hér má sjá drög að Hönnunarhandbók fyrir endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal.
Hér má sjá drög að niðurlagningaráætlun.
Fyrirspurnir varðandi verkefnið beinist til Heiðu Aðalsteinsdóttur (heida.adalsteinsdottir@orkuveitan.is) og Grettis Adolfs Haraldssonar (grettir.adolf.haraldsson@orkuveitan.is), verkefnastjóra hjá Orkuveitunni.