Árbæjarlón tæmt 21. apríl

20. apr 2020

Orkuveitan
Álftir við Árbæjarstíflu
© Einar Örn Jónsson

Á hverju vori er lón Árbæjarstíflu tæmt, en tilgangurinn með því er að tryggja fiskgengd í gegnum stífluna frá vori fram á haust. Rennsli um Elliðaárnar mun því aukast nokkuð á meðan lónið tæmist.

Á haustin er vatni svo aftur safnað í lónið í þeim tilgangi að vernda lífríki Elliðaáa fyrir neðan stíflu og tryggja stöðugt vatnsrennsli á yfirfallinu úr lóninu. Með vatnssöfnuninni er jafnframt komið í veg fyrir að krapi safnist við botnlokur og takmarki mögulega rennsli í árnar.

Árbæjarstífla er önnur tveggja stífla sem voru byggðar til að beisla Elliðaárnar til raforkuframleiðslu. Elliðaárvirkjun var gangsett árið 1921 og var rafmagn framleitt í virkjuninni allt til ársins 2014. Stíflan er nú eingöngu rekin með hagsmuni lífríkis Elliðaáa í huga.


Mynd: OR - Einar Örn Jónsson