3. feb 2021
OrkuveitanTæplega 170 manns sóttu um starf Skapandi leiðtoga sem ætlað er að leiða sögu- og tæknisýningu sem opnar síðar á árinu undir merkjum Elliðaárstöðvar. OR auglýsti starfið í desember síðast liðnum og er ráðningarferli nú í fullum gangi.
Í sumar verða liðin hundrað ár síðan rafstöðin í Elliðaárdal var vígð og í tilefni þess verður sýningin opnuð. Torfan við Rafstöðvarveg fær þá nýtt hlutverk þar sem þessi merkilega saga okkar verður sögð með fjölbreyttri og fræðandi upplifun, bæði innan dyra og í ævintýralegu umhverfi dalsins.
Elliðaárdalurinn er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði borgarinnar þar sem Orkuveita Reykjavíkur hefur gegnt lykilhlutverki í gegnum árin.
Það var sannkölluð bylting þegar rafstöðin var tekin í gagnið á sínum tíma og má segja að hún hafi lýst leiðina til framtíðar. Ekki aðeins með því að framleiða rafmagn heldur skapaði hún þekkingu og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag. Með framsýni rafmagnsstjóra í skógræktarmálum var hrjóstrugum hólma breytt í gróið útivistarsvæði þar sem þrífst nú fjölbreytt plöntu- og fuglalíf.
Í Elliðaárstöð munu skólahópar, fjölskyldur, fróðleiksþyrstir og útivistarfólk geta kynnt sér vísindin og tæknina sem falin er í veggjum hvers heimilis á sama tíma og þau kynna sér hvernig veiturnar umbyltu lífsgæðum í Reykjavík.