Matarspor - kolefnisspor máltíða dregið fram á sjónarsviðið

18. sep 2019

Orkuveitan

EFLA opnar í dag nýjan vef, Matarspor, sem reiknar út og sýnir kolefnisspor máltíða á myndrænan og upplýsandi hátt. Orkuveita Reykjavíkur er fyrsta mötuneytið sem tekur kolefnisreikninn í notkun. Hugbúnaðurinn er ætlaður mötuneytum og matsölustöðum og er hugsaður til að auðvelda fólki að taka upplýsta ákvörðun um eigin neyslu og auka umhverfisvitund þess. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði Matarsporið formlega að viðstöddum gestum, fulltrúum frá EFLU, Orkuveitunni og dótturfyrirtækjum.

Á ábyrgð allra

Matarspor - merki

Matarspor er gagnlegt upplýsingatól gagnvart áskorunum dagsins í loftslags- og umhverfismálum. Í núverandi Aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og í loftslagsstefnu fjölda fyrirtækja og stofnana er sjónum beint að kolefnisspori máltíða. Markmið Orkuveitu Reykjavíkur er að draga úr losun vegna matarsóunar um 90% fram til ársins 2030. Lykilaðgerð í þeirri vegferð er miðlun upplýsinga um kolefnisspor matvæla til þeirra sem borða í mötuneyti fyrirtækisins og að þær séu nýttar við innkaup matvæla. Með Matarsporinu fær starfsfólk OR greinargóðar upplýsingar um kolefnisspor máltíða og eru þær settar í samhengi við það hversu langt þyrfti að aka fólksbíl til að losa sama magn gróðurhúsalofttegunda.

Bestu fáanlegu upplýsingar

Losun gróðurhúsalofttegunda er eingöngu einn mælikvarði á umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu. Matarspor byggir á stórri safngreiningu innlendra og erlendra rannsókna sem gerðar hafa verið með aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment). Flutningar matvæla til Íslands eru teknir með í reikninginn og eru sýndir sérstaklega, þannig að notandi geti auðveldlega áttað sig á hversu stóran þátt flutningar eiga í kolefnissporinu.

Bakgrunnur verkefnis

EFLA þróaði reiknivél til að reikna út kolefnisspor máltíða í aðdraganda umhverfisviku fyrirtækisins, sem er fræðsluvika meðal starfsmanna, þar sem umhverfismál eru rædd  í víðu samhengi. Reiknirinn vakti athygli, bæði innanhúss og utan, og ljóst var að mikil eftirspurn var hjá fyrirtækjum og stofnunum eftir slíku tóli. Því var verkefnið þróað áfram og varð að þeirri vöru sem Matarspor er í dag. 

Nánari upplýsingar um Matarspor er að finna á þjónustusíðu hugbúnaðarins: https://www.efla.is/thjonusta/umhverfi/matarspor