Ný ásýnd Orkuveitunnar

05 Jarðhiti 2.jpg

Til að endurspegla áherslur Orkuveitunnar í nýrri stefnu birtist vörumerki og ásýnd fyrirtækisins með nýjum hætti. Sú ásýndarbreyting endurspeglar skuldbindingu Orkuveitunnar til að vera aflvaki breytinga sem hvetja til nýsköpunar og framfara í samfélaginu.

Í framtíðarsýn og stefnu Orkuveitunnar er lögð áhersla á sjálfbærni, nýsköpun, samstarf og framtíðarhugsun með hag viðskiptavina og samfélagsins að leiðarljósi. Með því að nýta orku náttúrunnar, skapandi orku mannlífsins og frumkvöðlaorku starfseminnar skipar Orkuveitan sér í fremstu röð við að knýja áfram samfélög með sjálfbærum hætti.

Orkuveitan er hundrað ára frumkvöðull. Saga Orkuveitunnar er samtvinnuð sögu framfara og framsýni í íslensku samfélagi og innblástur endurmörkunarinnar var sóttur bæði í ríka arfleið og framtíðarsýn.

Merki Orkuveitunnar.png

Innblástur nýs merkis er sóttur í hreyfingu og samstarf Orkuveitunnar við viðskiptavini sína og samstarfsaðila. Merkið byggir á sterkri arfleið Orkuveitunnar en lögun merkisins vísar í eldri útgáfur. Orkuveitan er grunnkraftur og aflvaki sem sér um að veita orku til metnaðarfullra viðskiptavina og samfélagsins alls. Nýtt merki er táknmynd þessarar sífelldu hreyfingar og er ætlað að vera táknmynd nýrra tíma sem byggir á sterkum grunni og er aflvaki framfara, nýsköpunar og samstarfs.

Græni liturinn setur margvíslega orku og sjálfbærni í forgrunn og staðsetur rótgróið fyrirtæki í fremstu röð frumkvöðlafyrirtækja með nútímalegum hætti.

Lögformlegt heiti Orkuveitunnar er áfram Orkuveita Reykjavíkur þrátt fyrir að í daglegu tali verði heitið Orkuveitan notað. Enskt heiti fyrirtækisins er Reykjavík Energy sem vísar í sterka tengingu við orku Íslands.

Í vörumerkjahandbók Orkuveitunnar er að finna leiðbeiningar um hvernig vörumerki Orkuveitunnar birtist á helstu snertiflötum.

Ný ásýnd Orkuveitunnar