Saga Orkuveitunnar

2024

Loading...
Við erum aflvaki sjálfbærrar framtíðar

Orkuveitan tekur upp nýja stefnu, áherslur, merki og gildi og breytt nafn. Í takt við nýjar stefnuáherslur til sjálfbærrar framtíðar fær Orkuveitan nýja ásýnd. Framtíðarhugsun, enn frekari áhersla á nýsköpun, sjálfbærni og samstarf. Endurmörkun á vörumerkinu er byggð á nýju stefnunni og er ætlað að endurspegla hana. Orkuveitan er grunnkraftur og aflvaki sem sér um að veita orku til metnaðarfullra viðskiptavina og samfélagsins alls. Merki Orkuveitunnar táknar þessar sífelldu hreyfingar.

2020

Loading...
Carbfix tekur til starfa

Carbfix ohf. hefur starfsemi sem dótturfélag Orkuveitunnar í ársbyrjun. Samnefnt kolefnisföngunar- og förgunarverkefni hefur verið þróað og síðar rekið við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Markmið fyrirtækisins er að Carbfix-aðferðin verði sem flestum aðgengileg í baráttunni við loftslagsvána.

2021

Loading...
Gagnaveitu breytt í Ljósleiðarann

Eftir að hafa komið fram undir merki Ljósleiðarans síðustu sjö ár var nafni Gagnaveitu Reykjavíkur  formlega breytt í Ljósleiðarinn.

2016

Loading...
Planinu lýkur

Tæplega sex ára áætlun Orkuveitunnar og eigenda fyrirtækisins til að endurreisa fjárhag fyrirtækisins eftir áföll við efnahagshrunið á Íslandi 2008 lýkur í árslok. Áætlunin er kölluð Planið og skilar 20% meiri árangri en ráðgert var í upphafi.

2015

Loading...
Reykjavík að fullu ljósleiðaravædd

Á tíu árum tókst að tryggja borgarbúum eitt öflugasta net í heimi: ljósleiðarann.

Samkvæmt skýrslu Fjarskiptastofu frá 2024 er Ísland fremst í flokki þegar kemur að háhraðanettengingum.

2014

Loading...
Orkuveitunni skipt upp

Orkuveitunni skipt upp að lagaboði og dótturfélögin Orka náttúrunnar, sem sér um framleiðslu og sölu á rafmagni, og Veitur, sem reka vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu, líta dagsins ljós.

2012

Loading...
Orkuveitunni sett eigendastefna

Orkuveitan verður fyrsta orkufyrirtækið sem fær samþykkta eigendastefnu. Hún er samþykkt einróma í öllum þremur sveitarstjórnum eigenda.

2010

Loading...
Hitaveitan frá Hellisheiðarvirkjun tekin í notkun

Í desember 2010 er fyrsti áfangi hitaveitu frá Hellisheiðarvirkjun tekinn í notkun en aukin framleiðsla á heitu vatni til hitaveitu er ein frumforsenda þess að Hellisheiðarvirkjun er reist.

2007

Loading...
Gagnaveita Reykjavíkur stofnuð

Gagnaveita var stofnuð sem svið innan Orkuveitunnar 1. janúar 2005 en er breytt í hlutafélag 1. janúar 2007. Viðskiptavinir Gagnaveitunnar, sem á og rekur Ljósleiðarann, eru bæði fyrirtæki og heimili á veitusvæðum Orkuveitunnar.

2006

Loading...
Orkuveitan tekur við fráveitum

Með samningum við eigendur Orkuveitunnar, tekur fyrirtækið við því lögbundna hlutverki sveitarfélaganna að byggja upp og reka fráveitur. Haldið er áfram miklum umbótum á fráveitukerfum í takti við kröfur nýrra tíma.

2006

Loading...
Rafmagnsframleiðsla hefst í Hellisheiðarvirkjun

Jarðhitasvæði Hellisheiðarvirkjunar er sunnan við Hengilinn. Afl fyrsta áfangans er 90 MW fullbyggð getur hún orðið um 300 MW í rafmagni og 400 MW í varmaafli.

2002

Loading...
Sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur verður til

Hitaveita Akraness og Borgarbyggðar sameinast Orkuveitunni auk þess sem Akurnesingar leggja rafveitu sína og Andakílsárvirkjun inn í Orkuveituna. Sett eru lög um stofnun sameignarfyrirtækis. Á Reykjavíkurborg 92,22% eignarhluta í fyrirtækinu, Akraneskaupstaður 5,45%, Hafnarfjarðarkaupstaður 0,94%, Borgarbyggð 0,75%, Garðabær 0,47% og Borgarfjarðarsveit 0,17%. Þetta breytist fljótlega. Garðabær og Hafnarfjarðarkaupstaður hverfa úr eigendahópnum og Borgarbyggð og Borgarfjarðarsveit sameinast.

2000

Loading...
Vatnsveita Reykjavíkur sameinast Orkuveitunni

Starfssvæði Orkuveitunnar með vatnsveitum er að mestu á höfuðborgarsvæðinu en einnig víða á Suður- og Vesturlandi.

1999

Loading...
Stofnun Orkuveitunnar og fjórða veitan

Þann 1. janúar 1999 var Orkuveita Reykjavíkur stofnuð með því markmiði að sameina rafmagns-, hita- og vatnsveitu í eina öfluga heild.

Raforkudreifingin nær á komandi árum til liðlega helmings landsmanna í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Akranesi og Garðabæ. Hitaveitan er stærsta jarðvarmahitaveita í heimi og er stærsta uppspretta vatns hennar Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun.

Fljótlega kynnti Orkuveitan einnig áform um fjórðu veituna - gagnaveitu sem nýta myndi ljósleiðara til gagnaflutninga.

1998

Loading...
Fyrsta hreinsistöð fráveitunnar

Fyrsta hreinsistöðin fráveitunnar við Ánanaust er tekin í notkun og í gegnum hana fer fráveituvatn frá 57% íbúa Reykjavíkur.

1994

Loading...
Vatnsveitur verða matvælafyrirtæki

Ný reglugerð um matvælaeftirlit tekur gildi. Vatnsveitur eru í fyrsta sinn skilgreindar sem matvælafyrirtæki.

1992

Loading...
Íslendingar kynnast ljósleiðara

Saga ljósleiðarans á Íslandi nær aftur til níunda áratugarins þegar Póstur og sími hóf stafræna símstöðvavæðingu. Upp úr miðjum níunda áratugnum fór fyrirtækið að leggja fyrstu ljósleiðarana, þó eingöngu til innri nota á milli símstöðva sinna. Ljósleiðari þótti á þessum tíma dýr og flókin lausn, og ekki álitin raunhæf fyrir almenna notkun. En það átti eftir að breytast.

1991

Loading...
Veitingahús ofan á vatnsgeymum

Perlan, útsýnis- og veitingahús á toppi vatnsgeymanna á Öskjuhlíð, er tekin í notkun. Perlan tengir saman og hvílir ofan á sex hitaveitugeymum sem hver um sig rúmar 4 milljónir lítra af heitu vatni. Hún er stálgrindahús en stálgrindin hefur öðru hlutverki að gegna en tengja saman hitaveitugeyma og myndar hvolfþak.

1990

Loading...
Heitavatnsframleiðsla hefst í Nesjavallavirkjun

Hitaveitan á Nesjavöllum er tekin í notkun 1990 þar sem grunnvatn er hitað upp og flutt til höfuðborgarsvæðisins. Hún framleiðir nú 120 MW af rafmagni og 300 MW í varmaorku.

1984

Loading...
Síðasta opna vatnsbóli Reykjavíkur lokað

Árið 1984 var síðasta opna vatnsbólið á Höfuðborgarsvæðinu tekið úr notkun og í dag kemur því allt vatn úr lokuðum borholum, sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins gegn mengun.

1979

Loading...
Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar (HAB) stofnuð

Upphaf hitaveitu í Borgarfirði má rekja aftur til 7. áratugar síðustu aldar þegar jarðhitamælingar hófust á svæðinu. Eftir árangurslausar tilraunir Borgfirðinga og Akurnesinga fyrstu árin leiddi frumathugun á Deildartunguhver í ljós að hagkvæmt yrði að nýta hitann úr honum í hitaveitu. Hverinn er sá vatnsmesti á Íslandi og Evrópu allri. Hitaveitan er formlega stofnuð árið 1979 á Hvanneyri.

1977

Loading...
Ísland rafvætt að fullu

Hætt er að skrá íbúa án rafmagns í opinberum tölum og telst Ísland því vera fullrafvætt.

1971

Loading...
Reykjavík telst hitaveituvædd að fullu

98% Reykvíkinga eru tengdir Hitaveitunni. Upp frá þessu fá öll ný hverfi hitaveitu frá fyrsta degi. Olíukynding húsa í Reykjavík er úr sögunni en einmitt um þessar mundir skellur á svokölluð olíukreppa í heiminum með stórhækkuðu olíuverði.

1968

Loading...
Nauthólsvík lokað

Baðströndinni í Nauthólsvík er lokað vegna mengunar. Hún er opnuð á ný árið 2000 eftir stórátak í fráveitumálum.

1965

Loading...
Nesjavallajörðin keypt

Reykjavíkurborg kaupir jörðina Nesjavelli til jarðhitanýtingar. Nýtingin hófst árið 1990 þegar heitavatnsframleiðsla hófst í Nesjavallavirkjun.

1958

Loading...
Gufuborinn Dofri

Ríkið og Reykjavíkurborg festa kaup á „gufubornum“ sem gjörbyltir allri jarðvarmanýtingu, jafnt á lághita- og háhitasvæðum. Áratugina á eftir er gufuborinn nýttur til að afla aukins heits vatns með því að endurvirkja lághitasvæðin í Laugarnesi, Reykjum og Reykjahlíð og boranir voru hafnar með honum í Elliðaárdal.

1955

Loading...
Kolviðarhóll keyptur

Reykjavíkurborg kaupir jörðina Kolviðarhól með jarðhitanýtingu þar í huga. Hún hefst ekki fyrr en 2006 þegar Hellisheiðarvirkjun tekur til starfa.

1952

Loading...
Fjárfest í IBM gataspjaldavélum

Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hagstofan festa saman kaup á IBM gataspjaldavélum. Upphaf tölvualdar á Íslandi.

1950

Loading...
Írafossvirkjun í Sogi

Framkvæmdir hefjast við Írafossvirkjun í Sogi. Samhliða er unnið að undirbúningi áburðarverksmiðju í Gufunesi til að nýta hluta orkunnar. Virkjunin er vígð 1953 og flytur Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, ávarp við athöfnina.

1947

Loading...
Jarðhitarannsóknir hefjast í Henglinum

Ríkið, Reykjavíkurbær og Hafnarfjörður hefja jarðhitarannsóknir í Henglinum. Talið er að orkan sé næg en bortæknin ekki fyrir hendi.

1947

Loading...
Andakílsárvirkjun

Andakílsárvirkjun er tekin í gagnið.  Rekstur hefst í Andakílsárvirkjun í október 1947. Virkjunin leysir vélknúnar rafstöðvar af hólmi sem notaðar höfðu verið bæði á Akranesi og í Borgarnesi og nálægu dreifbýli. Virkjun árinnar lauk 1974 þegar ný vélasamstæða er tekin í notkun. Heildarframleiðslugeta er 8 MW.

1937

Loading...
Ljósafossvirkjun

Ljósafossvirkjun í Sogi er tekin í notkun. Stærstur hluti orkunnar fer í að knýja Rafha-eldavélarnar sem allir vilja eignast. 

Sogsstöðvar er samheiti yfir þrjár vatnsaflsvirkjanir í Soginu sem voru byggðar af Reykjavíkurborg og ríkinu til að tryggja rafmagn í Reykjavík og á Suður- og Vesturlandi. Ljósafossstöð er sú fyrsta. Síðar koma Írafossstöð og Steingrímsstöð.

1930

Loading...
Hitaveita Reykjavíkur stofnuð

Austurbæjarskóli og nokkur hús við Bergþórugötu eru fyrstu húsin í Reykjavík sem hitað er með vatni úr Þvottalaugunum, svokallaðri Laugaveitu. Árið 1937 er hitaveita komin í 58 hús.

1928

Loading...
Borun hefst eftir heitu vatni

Árið 1928 er fyrsta holan boruð við Þvottalaugarnar í Reykjavík, sem höfðu verið notaðar um áratugi til þvotta. Við borunina jókst vatnsstreymið til yfirborðsins og náði 14 lítrum á sekúndu af 87°C heitu vatni.

1921

Loading...
Elliðaárstöð tekin í notkun

Rekstur Rafmagnsveitu Reykjavíkur hefst.

Í árslok 1919 ákveður bæjarstjórn Reykjavíkur að láta reisa 1000 hestafla virkjun við Elliðaárnar. Framkvæmdum við virkjunina lauk á vormánuðum 1921 og var stöðin vígð hinn 27. júní sama ár. Rafmagnið er leitt með ofanjarðarlínu í aðveitustöð á Skólavörðuholti, sem þá var í útjaðri bæjarins. Þaðan er raforkunni dreift í neðanjarðarleiðslum til átta spennibreytistöðva í bænum.

1909

Loading...
Vatnsveita Reykjavíkur tekur til starfa

Vatnið er í fyrstu sótt í Elliðaárnar en síðar Gvendarbrunna.

Árið 1908 er hafist handa um að leggja vatnspípur um Reykjavíkurbæ og formlega er Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð 16. júní 1909. Vatni er hleypt í bæinn „til reynslu“ úr Elliðaám. Upphafsdagur vatnsveitu í Reykjavík er þó jafnan talinn 2. október 1909 þegar leiðsla frá Gvendarbrunnum er tekin í notkun. Með þessum virkjunarframkvæmdum eiga Reykvíkingar greiðan aðgang að nægu hreinu vatni, enda líður ekki á löngu þar til vatnsneysla þeirra margfaldast.

1902

Loading...
Fyrsta veitulögnin í Reykjavík

Lokuð skólplögn er lögð frá Landakotsspítala niður að sjó. Hún tengist miklum brunni sem gerður var fyrir spítalann. Þetta er fyrsta holræsið í Reykjavík en áður hafði skólp runnið í opnum rennum um helstu götur niður í sjó, í Tjörnina eða Lækinn. Knud Zimsen, síðar borgarstjóri, stýrir framkvæmdum. Lögnin, sem er gerð úr leir, er enn í notkun 2017 en hefur verið fóðruð með nútímatækni.