Utanáliggjandi rennslismælingar með hlutanetstengingu

Verkefnið Utanáliggjandi rennslismælingar með hlutanetstengingu á vegum Sonomicrolabs ehf. fékk 5 milljóna króna styrk úr VOR - Vísinda- og frumkvöðlasjóði Orkuveitunnar á árinu.

Verkefnið felur í sér þróun rennslismæla sem festa má utan á lagnir án þess að rjúfa þær. Mælarnir byggja á hljóðbylgjumælingu sem skynjar flæði í gegnum lagnir og nýtir NB-IoT tækni fyrir þráðlaus samskipti. Með þessari nálgun verður bæði auðveldara og hagkvæmara að fylgjast með vatnsflæði í fjölbreyttum kerfum – allt frá vatnsveitu til orku-, matvæla- og iðnaðarstarfsemi þar sem ferskvatn er nýtt í miklu magni.

Tæknilausn Sonomicro byggir á sjálfvirkri og stafrænnri gagnaöflun sem gerir notendum kleift að sjálfvirknivæða ferla, greina frávik fyrr og taka betri ákvarðanir um nýtingu vatnsauðlinda. Gögnum er safnað í rauntíma og þau geta nýst til að hámarka skilvirkni, draga úr sóun og minnka líkur á bilunum í kerfum þar sem vatnsrennsli skiptir miklu máli. Flæðimynstur eru sjálfkrafa greind með gervigreindartækni, sem veitir dýpri innsýn í vatnsnotkun og hjálpar við að greina leka eða óeðlilega hegðun í kerfum á sjálfvirkan hátt.

Slíkar mælingar eru sérstaklega mikilvægar í samhengi við sjálfbæra auðlindanýtingu. Vatn er ein af dýrmætustu náttúruauðlindum Íslands og því skipta nákvæmar, aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar höfuðmáli þegar kemur að því að tryggja vernd og ábyrga nýtingu auðlindarinnar.

„Styrkurinn mun gera SonoMicro kleift að hraða þróun og prófun á flæði mælitækni fyrir stærri og flóknari lagnakerfi. Hann mun einnig styðja við orkuskipti og sjálfbæran rekstur með þróun innbyggðrar gervigreindar,“ segir Daníel Bergmann Sigtryggsson sem tók við styrknum.

Verkefnið er gott dæmi um hvernig VOR – vísinda- og frumkvöðlasjóður Orkuveitunnar styður við nýsköpun, ábyrgð og tækniþróun sem hefur bein áhrif á sjálfbæra framtíð samfélagsins. Með stuðningi við Sonomicrolabs er Orkuveitan að efla skilning á vatnsauðlindum, bæta nýtingu þeirra og leggja grunn að sjálfbærari og öruggari vatnsinnviðum á Íslandi.

Loading...