29. sep 2025
Orkuveitan
Um helgina tók Orkuveitan þátt í Vísindavöku sem Rannís stendur fyrir, en Vísindavaka er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu Researchers' Night.
Á Vísindavöku Rannís stendur almenningi til boða sannkölluð vísindaveisla þar sem fremsta vísindafólk landsins sýnir og segir frá rannsóknum og nýsköpun á lifandi og gagnvirkan hátt.
Orkuveitan og dótturfélög hennar voru með stóran bás á svæðinu þar sem okkur gafst tækifæri á að fræða gesti um hvernig við nýtum auðlindirnar okkar á ábyrgan hátt og tryggjum þannig að komandi kynslóðir búi við sömu lífsgæði og við gerum nú. Gestir voru mjög áhugasamir um það sem við höfðum upp á að bjóða en þau gátu tekið þátt í blindandi mælaskiptum Veitna, kynnt sér vísindin á bakvið ljósleiðara hjá Ljósleiðaranum, kíkt á mismunandi steina í smásjá Jarðhitasýningarinnar, lært um ferðalag dropans og hringrás vatnsins hjá Elliðaárstöð, tekið þátt í skemmtilegum leik hjá ON og kynnt sér hvernig Carbfix bindur CO2 varanlega.
Við þökkum öllum þeim sem komu við á básnum okkar kærlega fyrir komuna. Við áttum mörg skemmtileg samtöl við unga sem aldna og fengum að svara mörgum skemmtilegum spurningum frá forvitnum gestum.
Takk fyrir okkur!