Hreint vatn er ekki heppni

2. okt 2025

Orkuveitan

Í dag er merkisdagur í sögu vatnsveitu á Íslandi. Árið 1908 er hafist handa við að leggja vatnspípur um Reykjavíkurbæ og formlega er Vatnsveita Reykjavíkur stofnuð 16. júní 1909. Vatni er hleypt í bæinn „til reynslu“ úr Elliðaám. Upphafsdagur vatnsveitu í Reykjavík er þó alla jafna talinn vera 2. október 1909 þegar leiðsla frá Gvendarbrunnum er tekin í notkun. Með þessum virkjunarframkvæmdum eiga Reykvíkingar greiðan aðgang að nægu hreinu vatni, enda líður ekki á löngu þar til vatnsneysla þeirra margfaldast. Vatnsnotkun í Reykjavík eykst úr 18 lítrum á sólahring í rúmlega 200 lítra á sólarhring á hvern íbúa fljótlega eftir tilkomu vatnsveitunnar en áður var allt neysluvatn Reykvíkinga tekið úr brunnum og var það bæði ónógt og óheilsusamlegt.

Samhliða lagningu vatnslagna ákveður bæjarstjórn Reykjavíkur að leggja holræsi í allar götur. Þessar framkvæmdir leiða til betra heilsufars bæjarbúa með hreinu og góðu vatni, bættri fráveitu í holræsum og nægu vatni til brunavarna, steinsteypuframkvæmda og hvers konar iðnaðar, eins og fiskiðnaðar og matvælaframleiðslu.

Í tilefni afmælisdags vatnsveitu Reykjavíkur er tilvalið að deila hér hlaðvarpsþætti Samorku þar sem Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumanneskja vatnsmiðla hjá Veitum, ræðir við Lovísu Árnadóttur um vatnsveituna á höfuðborgarsvæðinu og minnir okkur á að hreint vatn er ekki heppni. Hvetjum ykkur öll til þess að hlusta í tilefni afmælisins. Hlaðvarpið má finna hér.

Orkuveitan og dótturfélög leggja gríðarlega mikla áherslu á að nýta auðlindirnar okkar á ábyrgan hátt, en það er lykilatriði í því að skapa áframhaldandi verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Neysluvatnið okkar er okkar mikilvægasta auðlind og því mikivægt að standa vörð um það. Eins og Hrefna nefnir í samtalinu: „Hreint vatn er ekki heppni og við getum ekki stólað á það að vera heppin. Besta leiðin fyrir okkur til að láta ekki neitt koma fyrir sem við getum ekki tekið aftur er að koma fyrir forvörnum. Það er á okkar ábyrgð að koma á forvörnum."