13. október 2025

Fyrir loftslagið - og Fríðu

Loading...

Á dögunum bauð Orkuveitan til opins samtals í Grósku í tilefni starfsloka Hólmfríðar Sigurðardóttur, frumkvöðuls í loftslags- og umhverfismálum, og fyrrverandi umhverfisgyðju Orkuveitunnar.

Markviss vinna að loftslagsmálum hér á landi á sér merka sögu. Fyrir um tuttugu árum hóf Hólmfríður störf hjá Orkuveitunni og gegndi þar lykilhlutverki í uppbyggingu fyrirtækisins Carbfix, sem hefur nú vakið athygli á heimsvísu fyrir byltingarkennda aðferð við að binda koltvísýring í bergi.

Nú hefur Hólmfríður lokið störfum hjá Orkuveitunni og við þau tímamót var boðið til fundarins Fyrir loftslagið þar sem fjallað var um framtíð loftslagsmála og hvernig við getum sameinast í aðgerðum gegn loftslagsvánni.

Á fundinum var litið yfir nokkur af helstu verkefnum Orkuveitunnar á sviði sjálfbærni og loftslagsmála. Emma Soffía Elkjær Emilsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærnimálum, kynnti loftslagsmarkmið Orkuveitunnar og leiðina að þeim með aðstoð Loftslagsvegvísis Orkuveitunnar. Tinna Jóhannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og sjálfbærnimála hjá ON, fjallaði um rafbílavæðingu undir yfirskriftinni Steingerður á rafmagnsbílnum, og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, sagði frá næstum tuttugu ára sögu fyrirtækisins.

Að því loknu tóku við pallborðsumræður undir yfirskriftinni Tíðin mín Fríða, þar sem Hildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofunnar, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, og Hólmfríður Sigurðardóttir sjálf ræddu stöðu og áskoranir loftslagsmála.

Fundinum lauk með ávarpi Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Orkuveitunnar.

Orkuveitan er ævinlega þakklát Hólmfríði því mikla og merkilega starfi sem hún vann að hjá fyrirtækinu og hvernig hún hefur staðið vörð um náttúruna og auðlindirnar okkar. Hólmfríður er sannarlega brautryðjandi sem hefur haft mikil áhrif á stefnu og aðgerðir Orkuveitunnar og dótturfyrirtækja hennar.

Takk fyrir allt, Fríða!

Loading...
Loading...
Loading...
Loading...
Loading...
Loading...