Elliðaárstöð tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025
Við erum virkilega stolt að segja frá því að Elliðaárstöð, sem er hluti af Orkuveitunni, hefur verið tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2025 í flokknum staður en hönnunarteymið Terta endurhannaði svæðið í samstarfi við Orkuveituna.
Gömlum byggingum var gefið nýtt hlutverk og glæsilegt útisvæðið fléttast fallega saman við starfsemina með einstöku leiksvæði, viðburðasvæðum og gönguleiðum. Svæðið býður nú upp á almenningsrými, gestastofu og veitingastaðinn Elliða.
Elliðaárstöð er gríðarlega vel sótt af barnafjölskyldum, göngufólki, skólahópum og gestum sem sækja þangað hina ýmsu viðburði og fræðslu.
Þar fer meðal annars fram vísindamiðlun til að auka orkulæsi skólahópa þar sem nemendur fræðast um orku, auðlindir og sjálfbærni á skapandi hátt í gegnum leiki og áskoranir til að skilja hvaðan orkan kemur, hvernig hún er notuð og hvernig við getum nýtt hana á ábyrgan hátt – sem er lykilatriði fyrir verðmætasköpun Íslands og sjálfbæra framtíð.
Í Elliðaárstöð er einnig hægt að fræðast um rafvæðingu Reykjavíkur sem markaði fyrstu orkuskiptin í bænum með því að rafmagn fór í sívaxandi mæli að styðja við mannlíf og atvinnulíf þar sem áður var notast við olíu, kol, gas eða mó. Hitaveitan í Reykjavík, sem tekin var í notkun 1930 og leysti kol og olíu af hólmi, fól í sér önnur orkuskiptin. Nú standa þau þriðju yfir þegar rafmagn og aðrir umhverfisvænir orkugjafar eru sem óðast að leysa jarðefnaeldsneyti í samgöngum af hólmi.
Við hvetjum öll til að gera sér ferð í Elliðaárstöð og njóta alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða og fræðast um auðlindir Íslands.
Hér má nálgast dagskrá Elliðaárstöðvar.