31. október 2025

Leiðtogi djúpnýtingar Orkuveitunnar í jarðhitahópi stjórnvalda

Loading...

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti í gær jarðhitahóp stjórnvalda sem ætlað er að móta framtíðarsýn um jarðhitaríkið Ísland. Sigurður H. Markússon leiðtogi Orkuveitunnar í djúpnýtingu er fulltrúi okkar í hópnum. Djúpborun og nýting ofurheits jarðhita er eitt af því sem ráðherra hefur nefnt sem áhersluatriði hópsins. Djúpnýting er einmitt eitt af því sem við í Orkuveitunni erum að leggja áherslu á enda leiðum við nú hið svokallaða IDDP3 verkefni þar sem boruð verður rannsóknarhola ætluð til djúpnýtingar á Nesjavöllum.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir ennfremur að hópnum sé falið að móta tillögur til ráðherra sem miði að því að skapa skilyrði til aukinnar raforku- og varmavinnslu með jarðhita, ýta undir tækniþróun og tryggja að jarðhitanum sé beitt markvisst „sem tæki til verðmætasköpunar og jöfnunar lífskjara og búsetuskilyrða á Íslandi."

Þá segir að hópurinn muni horfa til þess hvernig megi stuðla að öflugum grunnrannsóknum og menntun á sviði jarðvísinda og jarðhitanýtingar, viðhalda og efla leiðandi hlutverk Íslands í jarðhitamálum á alþjóðavísu, efla samstarf við önnur jarðhitaríki og styðja við útflutning þekkingar og tækni á sviði jarðhita.

Jarðhitahóp stjórnvalda skipa:

  • Bjarni Pálsson, forseti Alþjóðajarðhitasambandsins og framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun
  • Auður Agla Óladóttir, jarðfræðingur hjá ÍSOR
  • Sigurður H. Markússon, leiðtogi djúpnýtingar hjá Orkuveitunni
  • Elena Dís Víðisdóttir, verkefnastjóri hjá Orkubúi Vestfjarða
  • Finnur Sveinsson, viðskiptastjóri sjálfbærni hjá HS orku
  • María Erla Marelsdóttir, sendiherra hjá Þróunarsamvinnuskrifstofu UTN