Stóll sem hallar alltaf
Kvennafrídagurinn minnir okkur á að jafnrétti snýst ekki aðeins um laun og tölur, heldur líka um hvernig við metum og hlustum á raddir kvenna og þá sérstaklega í ábyrgðarstöðum. Rannsóknir sýna að konur í leiðtogahlutverkum mæta oftar svokölluðu bakslagi þegar þær eru ákveðnar eða setja kröfur.
Hegðun sem túlkuð er sem styrkur og leiðtogahæfni hjá körlum, er oftar kölluð frekja eða ósveigjanleiki hjá konum. Þetta er dæmi um double bind, tvöfalt viðmið sem setur konur í ómögulega stöðu.
Ef kona sýnir ákveðni, er hún kölluð „hörð“.
Ef hún sýnir mýkt, er hún sögð „veik“.
Þannig sitja margar konur í stól sem hallar alltaf, það skiptir ekki máli hvernig þær stilla hann, þær lenda alltaf utan við væntingarnar.
Þegar væntingar og raunveruleiki fara ekki saman
Annað fyrirbæri sem rannsóknir hafa sýnt fram á er lack of fit, þ.e. þegar hugmyndir fólks um „leiðtoga“ passa illa við staðalmyndir af konum. Í slíkum tilfellum þarf kona oftar að sanna sig meira, fær minna svigrúm til að mistakast og mætir harðari gagnrýni, jafnvel áður en hún nær að sýna hvað í henni býr.
Þessi reynsla hefur áhrif á líðan og sjálfstraust. Hún getur grafið undan trú á eigin hæfni og orðið til þess að sumar konur dragi úr metnaði sínum eða tjái sig með minni krafti. Þetta er ekki einkamál einstaklinga, niðurstöðurnar hafa bein áhrif á árangur, ákvarðanatöku og nýtingu mannauðs.
Jafnrétti snýst ekki bara um að konur fái sæti við borðið heldur að stóllinn halli ekki undir þeim.
Kerfið viðheldur hallanum
Viðhorf skapa menningu, en menningin speglast í kerfinu. Það eru ekki aðeins viðhorf til kvenna í vinnunni sem halla stólnum, heldur líka kerfið okkar. Meðal krafa aðstandenda Kvennaárs er að tryggja að atvinnulífið leiðrétti kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og að ólaunuð vinna kvenna sé metin að verðleikum.
Mikilvægt er að samfélagið okkar styðji foreldra af öllum kynjum svo þau geti sameinað foreldrahlutverkið og vinnu án þess að lenda í óréttlæti, hvort sem er í formi tekjutaps, hægari starfsþróunar eða skorts á stuðningi utan vinnustaðar. Gögnin sýna okkur t.d. að tekjur kvenna dragast saman um 30–50% við fæðingu barns og ná sér oft aldrei á sama stað og tekjur karla.
Jafnrétti er ekki aðeins spurning um viðhorf, heldur að tryggja raunverulegar kerfisbreytingar.
Leiðin áfram
Við getum öll lagt okkar af mörkum, í samtölum, ákvörðunum og daglegum samskiptum.
Það byrjar á því að staldra við og spyrja okkur sjálf:
- „Hef ég dæmt hegðun kynjanna á mismunandi hátt?“
- „Hef ég hlustað jafnt á allar raddir, eða aðeins þær sem hljóma líkt og mín eigin?“
- „Er ég að skapa rými þar sem ólík sjónarmið fá virkilega að heyrast?“
Að tryggja að raddir allra hópa fái hlustun og stuðning er ekki aukaatriði, það er forsenda nýsköpunar, trausts og heilbrigðrar menningar.
Jafnrétti næst ekki með orðum einum, heldur meðvitund, vilja og markvissum aðgerðum.
Í samræmi við gildi Orkuveitunnar
Gildin okkar minna okkur á hvernig við getum brugðist við í daglegu starfi:
Frumkvæði: Við tökum skrefin til að breyta hegðun og skapa sanngjarnara vinnuumhverfi.
Framsýni: Við sjáum fyrir og tökum á áskorunum áður en þær skapa ójafnvægi.
Hagsýni: Við tryggjum að hæfni og mannauður nýtist til fulls, án þess að konur þurfi að verja orku í að passa ímynd sína út á við.
Heiðarleiki: Við viðurkennum hlutdrægni og ræðum hana opinskátt.
Jafnrétti felst í því að lifa gildin, ekki aðeins að hafa þau á blaði.
50 ár frá fyrsta kvennafrídeginum
Árið 1975 gengu konur út af vinnustöðum, og heimilum, um allt land til að sýna hversu ómissandi vinnuframlag þeirra var. Talið er að um 90% kvenna hafi tekið þátt og dagurinn markaði tímamót í íslenskri jafnréttissögu. Dagurinn leiddi til raunverulegrar kerfisbreytingar á Íslandi og varð hvati að lagabreytingum og menningarlegri vakningu sem opnaði leiðina fyrir fleiri konur í stjórnmál, stjórnunarstöður og atvinnulíf almennt.
Þegar við horfum 50 ár til baka getum við glaðst yfir sigrunum sem hafa verið unnir, en um leið þurfum við að finna leiðir til að rétta stólinn af í eitt skipti fyrir öll, ekki bara fyrir konur heldur fyrir allt samfélagið.
Þannig byggjum við saman samfélag þar sem hæfni ræður, traust eykst og öll geta setið upprétt.
Hér má lesa um Kvennaár, sem er samstarfsverkefni fjölmargra samtaka femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Kvennaár samanstendur af viðburðum þar sem konur og/eða kvár koma saman, auk framlagningu krafna um aðgerðir í þágu jafnréttis. Kvennaár er framhald Kvennafrís og Kvennaverkfalla fyrri ára.