Brúum bilið í fæðingarorlofinu
© Einar Örn
Fæðing barns markar stór tímamót í lífi fólks. Þetta er tími gleði og breytinga, en líka tími þar sem stuðningur vinnustaðarins skiptir sköpum. Hjá Orkuveitunni trúum við því að fólk eigi ekki að þurfa að velja á milli fjölskyldulífs, fjárhagslegs öryggis og starfsþróunar. Góður vinnustaður mætir fólki þar sem það er statt í lífinu.
Hjá Orkuveitunni erum við alltaf að hugsa til framtíðar. Við erum m.a. í orkuöflun og viðhöldum mikilvægum innviðum sem snerta líf fólks hvern einasta dag. Við tökum því hlutverki alvarlega og af ábyrgð. Sú ábyrgð nær ekki aðeins til samfélagsins og náttúrunnar, heldur líka til fólksins sem vinnur hér. Vellíðan, öryggi og jafnrétti starfsfólks er forsenda þess að við náum markmiðum okkar til framtíðar.
Sterkur grunnur og stöðug þróun
Undanfarin ár höfum við markvisst byggt upp öflugan ramma í kringum fæðingarorlof. Með því að tryggja eðlilega launaþróun, uppsöfnun orlofs á orlofstíma og að hafa skýra ferla höfum við lagt áherslu á stöðugleika og sanngirni.
Nú höfum við stigið enn frekar inn í hlutverk forystuafls í jafnréttismálum með nýjum úrræðum sem endurspegla fjölbreyttar þarfir nútímafjölskyldna. Við erum að gera breytingar sem við trúum að muni gera góðan vinnustað enn betri:
- Launað leyfi fyrir barnshafandi starfsfólk allt að einum mánuði fyrir settan dag, án þess að ganga á veikindarétt, til að skapa svigrúm til hvíldar og undirbúnings.
- Hlutastarf að loknu fæðingarorlofi, þar sem foreldrum býðst að vinna 80% starf á fullum launum í allt að þrjá mánuði. Úrræðið er í boði fyrstu tvö ár barns.
- Fjölnotarými á vinnustað, hannað með þarfir barna í huga, rými þar sem leikur, hlátur og öryggi eru í forgangi þegar aðstæður kalla á að börn komi með í vinnuna.
- Vöggugjöf frá Orkuveitunni, styrkur sem nýtist á velferðatorginu Kara Connect og styður við þjónustu tengda meðgöngu, fæðingu og fyrstu mánuði barns.
Þessi úrræði eru hluti af heildrænni sýn á vinnustað sem við viljum að sé fjölskylduvænn og taki mið af þörfum nútímafjölskyldna.
Orkuveitan brúar bilið í fæðingarorlofi
Frá og með 1. janúar 2027 mun Orkuveitan tryggja full laun í allt að sex mánuði í fæðingarorlofi, með skilgreindu þaki. Greiðslan bætist ofan á réttindi úr Fæðingarorlofssjóði og er ætlað að skapa aukið öryggi á einu mikilvægasta tímabili í lífi allra barnafjölskyldna. Breytingarnar ná til barna fædd frá og með næstu áramótum.
Þetta er lykilaðgerð í jafnréttisstarfi Orkuveitunnar. Með henni viljum við:
- draga úr fjárhagslegum hindrunum við töku fæðingarorlofs
- stuðla að jafnari töku foreldra á orlofi, sérstaklega feðra
- styðja við jafnræði í tekjum og lífeyrissöfnun til lengri tíma
Þannig brúum við bilið sem oft hefur haft áhrif á ákvarðanir fólks, og sendum skýr skilaboð um að foreldrahlutverkið sé sameiginleg ábyrgð.
Fjárfesting í fólki, og framtíðinni
Orkuveitan hvetur allt starfsfólk til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Við viljum skapa vinnuumhverfi þar sem fólk getur tekið virkan þátt á vinnumarkaði á ólíkum æviskeiðum lífsins, án þess að fórna öryggi, metnaði eða framtíðarsýn.
Þetta er ekki aðeins mannauðsstefna. Þetta er fjárfesting í fólki, jafnrétti og langtímasamkeppnishæfni Orkuveitunnar. Með því að hlúa að fólkinu okkar styrkjum við liðsheildina, frumkvæðið og þá sköpunarkrafta sem knýja áfram orkuskipti, nýsköpun og sjálfbæra þróun.
Orkuveitan samanstendur af fimm fyrirtækjum sem saman mynda heild. Orka náttúrunnar, Veitur, Carbfix, Ljósleiðarinn og móðurfélag Orkuveitunnar eru fyrirtækin sem vilja byggja upp vinnustað sem er eftirsóknarverður, ábyrgur og tilbúinn fyrir framtíðina. Saman viljum við vera aflvaki sem kallar fram raunverulegar samfélagsbreytingar og sýnir í verki að jafnrétti og fjölskylduvæn vinnustaðamenning eru ekki aukaatriði, heldur forsenda heilbrigðs samfélags til framtíðar.
Ása Björk Jónsdóttir, Erna Sigurðardóttir, Kristrún Pétursdóttir
Höfundar eru mannauðsleiðtogar innan Orkuveitunnar