Ábyrg orkuöflun með rannsóknarborholum
Orkuveitan hóf fyrir skömmu borun fyrstu rannsóknarholunnar í Meitlum í sveitarfélaginu Ölfusi með það að markmiði að tryggja örugga og sjálfbæra orkuöflun og mæta vaxandi eftirspurn eftir heitu vatni og rafmagni.
Borun þessarar rannsóknarborholu (HR-01) lauk rétt fyrir jól og fyrstu mælingar gefa góð fyrirheit um framhaldið.
Notast var við hitalíkan yfir borholusvæðið áður en HR-01 var boruð og hægt að staðfesta að hitastig borholunnar er hærra en áður var talið þar sem það er heitara berg í efstu 1000 m holunnar en hitalíkanið hafði áður sagt til um. Hiti í botni holunnar er yfir 250°C. Næstu skref eru að framkvæma frekari mælingar til að fá betri sýn, en heilt yfir lofar holan góðu.

Áframhaldandi rannsóknir
Á Þorláksmessu hóf borverktakinn að flytja borinn yfir á borteig HR-02 þar sem næsta rannsóknarborhola er staðsett en hún er einnig á svæðinu Meitlum á Hellisheiði. Flutningar bortækis gengu mjög vel sem og að koma rafmagnsstreng og borvatnslögn að borteignum. Ekki er sjálfgefið að slíkir flutningar og framkvæmdir gangi svona vel uppi á heiði um hávetur í miðju jólafríi!
Borun HR-02 hófst 3. janúar og hefur gengið vel til þessa. Yfirborðsfóðring var steypt 6. janúar og öryggisfóðring var steypt 13. janúar. Nú er hafin stefnuborun fyrir vinnslufóðringu og dýpi holunnar var 530 metrar þann 19. janúar.
Borun HR-02 er spennandi verkefni þar sem verið er að stefnubora inn á nýtt, óþekkt svæði á jaðri núverandi svæðis og verður vonandi hægt að svara mörgum, mikilvægum spurningum þegar niðurstöður rannsókna verða ljósar.

Ábyrg orkuöflun
Til að tryggja áfram örugga orkuöflun fyrir heimili og fyrirtæki er nauðsynlegt að stækka vinnslusvæðið í Hverahlíð og kanna ný svæði í Meitlum. Borun rannsóknarholanna HR-01 og HR-02 er mikilvægur liður í þeirri vinnu og markar upphaf nýs áfanga í nýtingu jarðhita á svæðinu.
Orkuveitan er orku- og veitufyrirtæki í almannaeigu sem hefur um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki í orkuöflun fyrir samfélagið. Hlutverk félagsins er að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar en í því felst að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er treyst fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
