Vatnsafl

Loading...

Nýting okkar á vatnsafli felur í sér breytingu á hreyfiorku vatnsfalla í raforku. Elsta virkjun Orkuveitunnar með þetta hlutverk er Elliðaárstöð í Reykjavík sem var gangsett árið 1921.

Raforkuvinnsla í rafstöðinni við Elliðaár lagðist af árið 2014 eftir að aðfallspípan, sem flutti vatn frá Árbæjarstíflu til rafstöðvarinnar, brast. Hún var úrskurðuð ónýt.

Í framhaldinu var skoðað hvort það gæti svarað kostnaði að gera við hana en niðurstaðan varð neikvæð; rafmagn frá stöðinni yrði svo dýrt að vandfundinn yrði kaupandi að því. Árið 2019 var kveðið upp úr með það að raforkuvinnsla hæfist ekki aftur í fyrirséðri framtíð. Þá var efnt til hugmyndasamkeppni um nýtt hlutverk mannvirkjanna sem öll höfðu verið friðuð árið 2012. Uppbyggingin undir merkjum Elliðaárstöðvar er afrakstur þeirrar vinnu.

Hér er hægt að lesa meira um niðurlagningu Elliðaárvirkjunar.

Raforkuvinnslu úr vatnsafli fylgir sú ábyrgð að vinnslan hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki þess vatnsfalls sem virkjað er. Til þess er haft samráð við fjölda hagsmunaaðila virkjanarekstursins.

Andakílsárvirkjun

Andakílsárvirkjun í Borgarfirði hóf rekstur árið 1947. Virkjunin leysti af hólmi vélknúnar rafstöðvar sem notaðar höfðu verið bæði á Akranesi og í Borgarnesi og nálægu dreifbýli og var því mikil umhverfisbót. Vatnsafl er nýtt til að framleiða rafmagn og heildarframleiðslugeta virkjunarinnar er 8 MW.

Orkuveitan eignaðist Andakílsárvirkjun í Borgarfirði þegar Akraneskaupstaður bættist í hóp eigenda Orkuveitunnar árið 2002, en Orka náttúrunnar rekur virkjunina. Í rekstri virkjunarinnar er tekið verulegt tillit til vatnshæðar í Skorradalsvatni og rennslis í Andakílsá í þeim tilgangi að hlúa sem best að Skorradalsvatni sem náttúrusvæðis og Andakílsá sem veiðiá.

Smelltu hér til að lesa meira um Andakílsárvirkjun.

on_22112_andakilsarvirkjun2.jpg